149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er farið að líða að lokum þessarar umræðu þannig að ég er ekki að koma upp í hreint andsvar. Ég vildi samt sem áður koma hingað upp og þakka hv. þingmanni fyrir að draga fram það sem við getum sagt að snúi að formi málsins. Auðvitað hefur umræðan mestmegnis verið um efni frumvarpsins, en það er mikilvægt að ræða formið og fyrir hv. þingheim og alla sem vilja kynna sér efni fjárlagafrumvarpsins að gera það með sem skýrustum hætti. Það er einhugur í nefndinni að vinna að því.

Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að draga þetta hér fram og ég get staðfest að ég er mjög áfram um að við náum árangri í því að breyta þessu og laga til.