149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við hv. þingmaður höfum rætt þetta áður og erum alveg sammála um nauðsyn þess að skerpa á framsetningunni og gera skjalið allt aðgengilegra og þægilegra yfirlestrar þannig að þingmenn geti glöggvað sig betur á tölulegum upplýsingum, samanburði milli ára o.s.frv. þegar kemur að hinum ýmsu stofnunum ríkisins. Ég ítreka enn og aftur að ég fagna því að þetta er komið á dagskrá og að formaðurinn er áhugasamur um málið. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Það verður bara virkilega spennandi að fá að sjá næsta frumvarp þar sem verður vonandi búið að taka tillit til þessara athugasemda eins og hægt er.