149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[20:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er hér til meðferðar er auðvitað fyrst og fremst sú að við erum að koma í veg fyrir að bílar hækki tímabundið í verði vegna nýrra aðferða við að reikna út losun sem vörugjöldin byggja síðan á. Svarið við spurningunni hvort ég sé talsmaður þess að hreinlega hækka gjöld á hefðbundna bíla, hafi ég skilið hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur rétt, er einfaldlega nei. Ég held einmitt að við búum við þær aðstæður að það sé ekki raunhæft. Ég held að það væri eins konar refsiskattur eða refsigjald, ekki síst á landsbyggðina. Á meðan innviðir í landinu bera ekki rafbílavæðinguna þætti mér það fráleitt. Við eigum fremur að ýta undir að endurnýjun eigi sér stað vegna þess að þeir bílar sem eru þó að koma til landsins og eru knúnir hefðbundnu eldsneyti eru miklu sparneytnari en eldri bílar. Þess vegna nær þetta frumvarp þeim tilgangi að byggja undir það annars vegar að koma í veg fyrir að bílar hækki tímabundið, sem hefur áhrif á neysluverðsvísitölu og þar með lán landsmannaa, og hins vegar vara við því að menn fari að beita vörugjöldunum í þá átt að hækka vörugjald á hefðbundna bíla. Ég myndi líta á það sem alveg sérstakt álag á landsbyggðina miðað við þá innviðauppbyggingu sem við höfum ekki lokið við.