149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[20:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum hér er kannski skýrasta dæmið um eyðslugleði ríkisstjórnarinnar, að það var búið að eyða svo miklu að nú þurfti í raun og veru að hrista úr sparibauknum, það þurfti að skrapa upp enduruppreikning á ýmsum gjöldum hins opinbera mörg ár aftur í tímann til að nurla saman 500 milljónum til að geta svo eytt þeim jafnharðan. Mér finnst þetta mál hreint með ólíkindum og afleitt, en það sem ég verð að viðurkenna er að ég hef alltaf sperrt eyrun þegar hv. þingmaður og framsögumaður þessa máls, Óli Björn Kárason, talar um skattamál. Ég bjóst við því að þessu máli yrði bara hent út öfugu. Mér finnst það eiginlega ekki tækt. Það sem vekur sérstaka athygli mína og mig langar að spyrja hv. þingmann út í er að hér er í raun vikið frá því grundvallarsjónarmiði að gjald skuli endurspegla kostnað vegna þeirrar þjónustu sem veitt er. Fjármálaráðuneytið svarar fyrirspurn efnahags- og viðskiptanefndar með því að ekkert slíkt mat hefði farið fram við endurskoðun á þessum gjöldum, ekki minnsta tilraun gerð til þess, og að ráðuneytið teldi það vart svara kostnaði.

Þá spyr maður: Er grundvallarsjónarmiðið í þessu samhengi þá orðið of dýrt að mati fjármálaráðuneytisins? Finnst hv. þingmanni þetta ásættanleg afstaða ráðuneytisins? Þegar ég velti fyrir mér þeim gríðarlega fjölda gjalda sem hér er lagt til að séu hækkuð jafnvel umtalsvert án þess að nokkur raunveruleg greining liggi að baki því hvernig kostnaður hafi þróast í mörgum tilfellum efa ég t.d. ekki að veruleg tækniþróun á þeim árum sem liðin eru frá því að þessi gjöld voru endurskoðuð síðast hafi jafnvel leitt til kostnaðarlækkunar á þeirri þjónustu sem veitt er. Finnst hv. þingmanni þetta ásættanlegur rökstuðningur (Forseti hringir.) af hálfu ráðuneytisins?