149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[21:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég var að vísa til þess sem hér er fjallað um. Það er alveg rétt að unnin hefur verið sérstök greining á kostnaði við útgáfu vegabréfa en hér erum við að tala um þó nokkuð myndarlegan lista af ýmsum opinberum gjöldum og ráðuneytið sjálft hefur viðurkennt að ekki hafi farið fram nein greining á kostnaði á þeirri þjónustu sem þar er veitt. Þar hefði ég haldið að væri miklu skynsamlegra, í stað þess að andmæla þessu kurteislega í meirihlutaáliti nefndarinnar, að gera einfaldlega ráðuneytið afturreka með þessar hækkanir og segja: Viljið þið ekki greina þennan kostnað sem að baki liggur og rökstyðja hækkunarþörfina með öðru en bara vísitölutilvísun?

Eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir mætavel af eigin reynslu búa fæst fyrirtæki í atvinnulífinu við einhvers konar vísitölutryggingu á sínum tekjum. Það kallast framleiðniaukning í rekstri að verð hefur tilhneigingu til að hækka á vörum talsvert minna en almennt verðlag í einkageiranum, a.m.k. þar sem ég þekki til.

Það sem slær mig, og væri gaman að heyra skoðanir hv. þingmanns á, er að við erum hér með gjaldtöku fyrir skráningu á einkahlutafélagi sem mér eiginlega bara krossbregður við að skoða. Lágmarkshlutafé í einkahlutafélagi er 500.000 kr. og fyrir skráningu þess félags tekur ríkið 124.000, mér sýnist í fljótu bragði fjórðung af innborguðu hlutafé. Starfsmaður ríkisskattstjóra þarf væntanlega að skrá þá ein tíu slík félög til að standa undir launakostnaði sínum og aðstöðukostnaði á mánuði. Ég held að ekki sé beðið um mikil afköst í því.

Ég efast um að kostnaðurinn að baki þessari skráningu sé neins staðar nærri þessari fjárhæð og raunar sýnist mér í fljótu bragði við flest þrisvar til fjórum sinnum dýrari en hin Norðurlöndin. Ég veit að flokkur hv. þingmanns hefur ekki (Forseti hringir.) horft neinum aðdáunaraugum til skattlagningar í þeim ágætu löndum. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um það, hv. þingmaður, að hér er farið of geyst og greinileg dæmi þess að allt of langt sé gengið í gjaldtöku í mörgum tilvikum. (SJS: Ríkissjóður á enga vini.)