149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[21:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skattgreiðandi á fáa vini en hann á a.m.k. nokkra. Ég held að við getum alveg verið sammála, eins og ég sagði áðan, um að það er ekki góður bragur að gera þetta með þessum hætti. Ég ætla hins vegar ekkert að vera að skemmta skrattanum eða hv. þm. Þorsteini Víglundssyni með einhverju „gimmikki“, að bara senda frumvarpið til baka. Hv. þingmaður hefði getað lagt þá tillögu fram, annaðhvort í hv. efnahags- og viðskiptanefnd eða í þingsal, að vísa frumvarpinu frá. Það hefði verið skynsamlegt og þá hefðum við getað tekist á um það efnislega.

Þegar kemur að skráningu á hlutafélögum er það einmitt eitt dæmið sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar nefnir, það að þurfi að endurskoða í heild sinni kostnað vegna skráningar einkahlutafélaga, sjálfseignarstofnana o.s.frv. Það er sem sagt sérstaklega litið til þess að lækka kostnað við stofnun og skráningu fyrirtækja óháð félagaformi og að við miðum okkur við það sem gengur og gerist í samkeppnislöndum okkar. Það er markmiðið. Sú greiningarvinna fer þá fram og meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar er algjörlega samstiga ríkisskattstjóra í þeim efnum. Ég vona að hv. þingmaður sláist í för með okkur á næsta ári þegar við klárum það verkefni. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)