149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[21:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991. Eins og fram hefur komið liggur fyrir álit bæði minni og meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Ég skrifa undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og er þess vegna sammála því sem þar kemur fram, en mér fannst ástæða til að koma hér upp og ræða aðeins nokkra þætti. Vissulega get ég tekið undir margt sem fram kemur í áliti minni hlutans en mér finnst samt mikilvægt að halda því til haga, því að mér finnst hvorki almennt gaman að standa að skattahækkunum né gjaldahækkunum hjá ríkissjóði, að það er verið að ræða um hækkanir á gjöldum sem hafa verið óbreytt að krónutölu frá árinu 2010 þrátt fyrir að á þessum tíma hafi vísitala neysluverðs hækkað um 30% og vísitala launa um liðlega 70%. Það er eðlilegt að gefa sér að ef gjaldtakan var á sínum tíma í samræmi við kostnað ætti gjaldið að hafa hækkað eitthvað á þeim níu árum sem liðin eru frá því að þau tóku síðast hækkun, sérstaklega í ljósi þess að mikið af þessu felur í sér aðkomu starfsmanna þar sem vísitala launa hefur hækkað um liðlega 70%.

Þó tek ég fyllilega undir það, eins og ítrekað er í nefndarálitinu, að það er full ástæða til að greina kostnaðinn nokkuð nákvæmlega. Ég átta mig alveg á því, eins og fram kemur í svari ráðuneytisins, virðulegur forseti, að það kostar örugglega umtalsvert að fara í nákvæma greiningu á hverjum lið fyrir sig.

En aðeins til að fólk átti sig á því um hvað ræðir erum við að tala um að gjald sem áður var 15.000 fer upp í 19.000. Gjald sem er 50.000 fer upp í 65.000. Gjald sem var 2.000 fer upp í 2.500. Gjald sem var 3.850 fer upp í 5.000. Það er kannski ágætt að horfa á tölurnar líka í þessu samhengi, að þetta eru engar gríðarlegar fjárhæðir, fyrir það einmitt að leggja inn umsóknir og alls konar sem auðvitað felur alltaf í sér einhverja umsýslu.

Því finnst mér rétt að ítreka það sem fram kemur í nefndarálitinu og hv. þm. Óli Björn Kárason fór mjög vel yfir áðan, að meiri hluti nefndarinnar beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að undirbúa endurskoðun laga um aukatekjur ríkissjóðs með það fyrir augum að miðað verði við að gjöld þjónustustofnana verði skýrt skilgreind sem gjöld fyrir veitta þjónustu en ekki skatttekjur. Jafnframt telur meiri hlutinn eðlilegt að gera þær kröfur til annarra ráðuneyta og stofnana þeirra að þau rökstyðji fjárhæðir gjalda sem innheimt eru með hliðsjón af þeim kostnaði sem til fellur í viðkomandi stofnun.

Ég tel mikilvægt að halda þessu til haga, sérstaklega vegna þess að ég rak augun í eftirfarandi lokaorð í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum um að endurskoða þurfi lög um aukatekjur ríkissjóðs, en telur að endurskoðunin eigi að ná til allra þátta laganna með hliðsjón af framangreindum rökum, ekki bara því sem snýr að skráningu fyrirtækja.“

Ég lít svo á að í nefndaráliti meiri hlutans höfum við nákvæmlega verið að fjalla um það að fara þurfi yfir alla þá þætti er lúta að aukatekjum ríkissjóðs.

Þá vil ég ítreka það sem kom fram í máli framsögumannsins okkar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Óla Björns Kárasonar, að við föllumst ekki á þá tillögu að hækka gjöld er varða skráningu á félögum, þ.e. a- til e-lið 13. gr. Við leggjum til að þeir liðir falli brott, auk þess sem við leggjumst gegn hækkun á ökuskírteinum og vegabréfum til eldri borgara og öryrkja.

Mig langaði að ræða sérstaklega um þann lið er lýtur að gjöldum fyrir skráningu félaga. Ég get tekið undir margt sem fram kemur í nefndaráliti frá minni hlutanum, og við hv. þm. Smári McCarthy höfum rætt þessi mál töluvert. Ég held að við séum nokkuð sammála, og örugglega miklu fleiri, um mikilvægi þess að við tryggjum ávallt gott aðgengi frumkvöðla að því að stofna fyrirtæki. Það er einfaldlega mjög mikilvægt að við horfum til samkeppnishæfni okkar hvað þetta varðar og þegar umhverfi nýsköpunar og frumkvöðla er greint í löndunum í kringum okkur og samkeppnishæfni landanna hvað það varðar er kostnaðurinn auðvitað einn af þeim liðum sem horft er til. Það er líka horft til skriffinnskunnar, þjónustunnar á bak við, hvort hægt sé að nálgast allar upplýsingar á netinu, hvort leita þurfi til margra aðila eða hvort einn aðili geti veitt allar upplýsingarnar og svo mætti lengi telja. Þetta eru nokkrir hlutir.

Mér finnst mjög áhugaverð tafla í áliti minni hlutans þar sem farið er yfir skráningu einkahlutafélaga í mismunandi löndum. Þar kemur í ljós að Ísland verðleggur sig mjög hátt, sker sig úr miðað við þau lönd sem tekin eru saman í töflunni. Mér finnst það áhyggjuefni og hyggst beita mér fyrir því að þetta verði skoðað nánar. Ég hyggst leggja fram fyrirspurn til hæstv. nýsköpunar- og iðnaðarráðherra hvað þessi mál varðar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessar upplýsingar liggi ljósar fyrir.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu er ekki alveg víst að alltaf sé verið að ræða um sama hlutinn í öllum löndunum, að við séum að bera saman epli og appelsínur en ekki epli og epli. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fara betur yfir þetta þannig að við höfum þær upplýsingar alveg á reiðum höndum hvað það kostar nákvæmlega að stofna félög í öðrum löndum og hvort einhver önnur gjöld leggist ofan á þær upphæðir sem sýndar eru í töflunni.

Ég hjó eftir því þegar ég fór að skoða málið á netinu og forvitnast um kostnaðarliði í öðrum löndum að Evrópusambandið hefur ákveðin tilmæli til ríkja sinna, bæði Evrópusambandsríkjanna og EFTA-ríkjanna, er lúta að því að auka samkeppnishæfni í Evrópu þegar kemur að nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtækjum. Þá eru tilmæli þeirra til landanna um auðvelt aðgengi að því að stofna fyrirtæki þau að umsókn um skráningu fyrirtækis skuli afgreidd á þremur virkum dögum, taki helst ekki lengri tíma en svo, það skuli vera aðeins einn aðili sem þurfi að leita til og það sé æskilegt að hægt sé að nálgast allar upplýsingar og umsóknareyðublöð á netinu. Svo setur Evrópusambandið það viðmið að það eigi ekki að kosta meira en 100 evrur að stofna félag, 14.000–15.000 íslenskar krónur, sem er umtalsvert lægri upphæð en sú upphæð sem við horfum á í dag, 131.000 kr.

Ég tek alveg undir það sem kom fram í máli hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, þegar litið er á að lágmarkshlutafé sem þarf að sýna fram á við stofnun félags er 500.000 er skráningarkostnaðurinn töluvert hár í þeim samanburði.

Ég tel fulla ástæðu til að þetta mál sé skoðað frekar og ég efast ekki um að við séum allmörg á þingi sem erum tilbúin að leggjast á eitt hvað það varðar. Ég hyggst beita mér fyrir því að við tökum saman þessar upplýsingar þannig að þær séu vel samanburðarhæfar og í kjölfarið tryggjum að á Íslandi séum við ávallt mjög samanburðarhæf þegar kemur að nýsköpunarumhverfi fyrirtækja.