149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Forseti. Það einkennir gott samfélag að þar sé nauðsynlegt eftirlit með lögum en slíkar eftirlitsheimildir verða að vera skýrar. Hvers konar valdheimildum ríkisins er líka alltaf hollt að mæta með heilbrigðri tortryggni. Við megum ekki gleyma að það er hið opinbera sem er alltaf stærri og sterkari aðilinn gagnvart hverjum einasta einstaklingi og lögaðila í landinu. Allt okkar reglukerfi tekur enda mið af því, t.d. í formi réttarríkisreglna eða á alla vega að taka mið af því. Nýlega staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms um að felld skyldi úr gildi stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á fyrirtækið Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum. Áður hafði gjaldeyriseftirlitið staðið fyrir viðamikilli og mjög áberandi húsleit hjá fyrirtækinu. Seinna tók sérstakur saksóknari við málinu en hann ákvað að fella niður sakamál vegna þessarar meintu brota. Ákvað Seðlabankinn þá að beita stjórnvaldssekt sem Hæstiréttur hefur nú kveðið á um að skuli felld úr gildi.

Þótt okkur leiðist ekki mikið almennt að hneykslast á alls konar, flesta daga ársins, þá hefur einhverra hluta vegna lítið verið hneykslast á þessu máli. Kannski er það út af því að okkur er orðið tamt að treysta í blindni hinu opinbera. Kannski er það út af því að þolandinn í málinu er ekki minni máttar og þarf því síður stuðning samfélagsmiðlana. Hvorugt er góð ástæða til að vera skeytingarlaus gagnvart hvers kyns eftirlitsheimildum og valdbeitingu.

Forseti. Í mínum huga er því full þörf á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins taki þetta mál föstum tökum og það verði skoðað ofan í kjölinn. Það er ábyrgðarhluti að eftirlits- og valdheimildum hins opinbera sé ekki mætt af skeytingarleysi, sama hver á í hlut. Það verður stanslaust að huga að því hver eigi að gæta varðanna.