149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég las í morgun grein í Guardian sem svo sannarlega er ekki í frásögur færandi. Þar var fjallað um þá staðreynd að einn af hverjum fjórum kjósendum í Evrópu styður popúlíska flokka. Það er hins vegar í frásögur færandi og nokkuð sem ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af.

Íslendingar eru ekkert öðruvísi en annað fólk, þróun úti í heimi verður hæglega þróun hér. Og um það vil ég ræða. Við sem samfélag berum öll ábyrgð á því að reyna að sporna við þessari þróun en við sem í þessum sal erum berum enn meiri ábyrgð. Samkvæmt umræddri grein eru viðvörunarmerkin fjölmörg, t.d. það að staðreyndir eru dregnar í efa og ekki síst sú tilhneiging að afgreiða aðra stjórnmálaflokka með þeim merkimiða að þeir séu bara kerfisflokkar sem hafi það hlutverk eitt að verja ríkjandi valdakerfi.

Ég hef oft orðið hugsi í þessum sal. Það er hins vegar ekki í frásögur færandi — verandi einfaldur maður verð ég hugsi oft á dag, bæði yfir orðum annarra og mínum eigin. En hvernig tölum við saman um stjórnmál? Það líður varla sú vika hér, bæði úti í samfélaginu en einnig í þessum sal, að heilbrigðisráðherra sé ekki sakaður um að drepa fólk. Við skirrumst ekki við að kalla það ofbeldi ef okkar skoðanir njóta stuðnings minni hluta. Lýsingar á ástandinu minna oft og tíðum á Víti Dantes, í nýrri þýðingu Einars Thoroddsens, þó án rímsins og þríhendunnar. Staðreyndir virðast skipta æ minna máli, tölur eru vefengdar, viðbætur verða niðurskurður í munni stjórnarandstöðu og aukning blásin upp í máli okkar stjórnarliða. Við virðumst sem samfélag ekki einu sinni geta verið sammála um hvort það séu grafir hér handan götunnar þar sem hugað er að húsbyggingum.

Það er auðvelt að afskrifa orð mín sem eitthvert þus í stjórnarliða, hneykslast á ósvífninni og flissa jafnvel yfir bjánaganginum í þessum gaur. Það er hins vegar einfalda leiðin. Erfiðari leiðin er að líta í eigin barm, huga að eigin málflutningi, horfast í augu við hættulega þróun og gera sitt til að sporna við henni. (Forseti hringir.)

Popúlismi er vaxandi í stjórnmálum víða um lönd. Við getum haft áhrif á þá þróun hér á landi með því að taka hana alvarlega. Ábyrgð Alþingis á umræðunni er mikil og það er okkar hvers og eins að axla okkar skerf af henni. Það skulum við gera.