149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ótrúlegt en satt þá langar mig til að nýta þessa stund til að ræða störf þingsins og kynna erindi sem þingflokkur Samfylkingarinnar sendi til forsætisnefndar í síðustu viku um að bæta fjarfundaaðstöðu nefndasviðs Alþingis. Eitt af mikilvægustu hlutverkum þingnefnda er að taka á móti fjölbreyttum hópi gesta. Til að þingnefndir geti fengið sem flest sjónarmið og sem skýrasta mynd af málum er mikilvægt að sem flestir gestir hafi tök á og tækifæri til að koma á nefndarfundi. Það eru því fjöldi manns á hverjum virkum degi alls staðar að af landinu sem kemur til fundar við nefndir þingsins, sem er gott og nauðsynlegt.

Flestir þessara gesta koma á vegum fyrirtækja eða stofnana sem greiða fyrir ferðakostnað ef við á, en þó kemur fyrir að fyrir nefndina eru kallaðir sérfræðingar sem koma á eigin vegum og þurfa þá að standa sjálfir undir kostnaði við ferðina. Kostnaður sem fylgir því fyrir aðila utan höfuðborgarsvæðisins að koma fyrir þingnefndir getur hlaupið á hundruðum þúsunda í formi ferðakostnaðar og vinnutaps. Þó að sá kostnaður sé greiddur af fyrirtæki eða stofnun er oft um að ræða óásættanlegan kostnað fyrir einn fund sem stendur jafnvel ekki lengur en í hálfa klukkustund. Sömuleiðis þýðir þetta í einhverjum tilfellum að einstaklingar geta ekki mætt til fundar við nefndir þingsins vegna kostnaðar, vinnutaps, já eða veðurs. Þá eru ótalin kolefnissporin sem þessi ferðalög skilja eftir sig.

Á síðustu árum hafa orðið hraðstígar breytingar í fjarfundaatækni og er svo komið að hægt er að halda fjarfundi með mynd á mjög aðgengilegan og þægilegan hátt án þess að þurfa að kosta miklu til í búnað. Þá er mikilvægt að nefndarritarar fái þjálfun í að nota búnaðinn. Þetta erindi var sent til forsætisnefndar til að óska formlega eftir því að forsætisnefnd setji af stað vinnu til að tryggja að það verði hægt sem allra fyrst að sækja fundi þingnefnda í gegnum fjarfund og að sá valkostur verði aðgengilegur og auðveldur í framkvæmd.