149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hjá ríki og sveitarfélögum fara 89% allra stærri verkefna fram úr áætlun. Þetta kemur fram í gögnum tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Af 35 verkum sem þar voru tekin dæmi um fór eitt undir kostnað, þrjú voru á sléttu, 31 verkefni fór yfir kostnaðaráætlun, þar af fimm yfir 25% og átta 100% yfir. Þá fóru sjö frá 125% til 200% yfir og þar af eitt yfir 300%. Þá kemur fram í þessu máli að Norðmönnum hefur tekist að lækka raunkostnað framkvæmda um 14% með innleiðingu opinberrar gæðatryggingar. Það segir að við erum 15–20 árum á eftir Norðmönnum.

Í þessu samhengi vil ég benda á að Erik Solheim, yfirmaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, var á ferðalagi í 529 daga af 668 og eyddi 488.518 dollurum, eða rúmum 60 milljónum, í sitt ferðalag. Hvað segir það okkur? Hvernig væri að við færum í naflaskoðun, færum að dusta kuskið af og hugsa um hvað við erum að gera.

Við vorum hér í umræðu um fjárlög. Þar var tekið dæmi um það að ef öryrkjum hætti ekki að fjölga færi kostnaður úr 40 milljörðum upp í 90. Ætlum við t.d. að fara mörgum milljörðum fram úr með Landspítalann, sjúkrahótelið? Horfið á Vaðlaheiðargöngin. Er ekki kominn tími til þess að við lítum í eigin barm og spörum og hugsum? Ætlum við að fara fram yfir eða ætlum við að vera eins hagsýnir og Norðmenn og fara 14% undir kostnaðaráætlun?