149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Í gær var alþjóðadagur barna. Í tilefni þess fengum við þingmenn fallegar gjafir frá börnum í Flataskóla. Þingmenn skiptust á að sýna hver öðrum hvaða skilaboð hver fékk. Gjafirnar framkölluðu bros. Ég þakka kærlega fyrir mig. En dagurinn í gær var ekki bara alþjóðadagur barna enda eru tilefni til hátíðahalda mun fleiri en fjöldi daga í árinu. Hitt tilefni gærdagsins bjó líka til bros — fyrir suma. Með leyfi forseta:

„Pabbi, strákarnir voru að sparka í mig og ég veit ekki af hverju. Þeir sögðu líka eitthvað „ginger“ og það hlógu allir að mér og ég skil ekki af hverju.“

Þetta símtal fékk faðir úti í bæ í gærmorgun frá syni sínum. Röddin var titrandi og barnið var augljóslega í áfalli. Gærdagurinn er líka nefndur „Sparka í rauðhærða“. Þetta fór þannig fram að tveir strákar spörkuðu ítrekað í þetta barn meðan annar hópur eldri nemenda fylgdist með. Sá hópur skarst ekki í „leikinn“ nema þá með því að taka undir, með hvatningu og hlátri, þar sem dagurinn er til að sparka í rauðhærða. Skilaboð föðurins eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég var reiður, afskaplega reiður, sár og er enn. Reiði mín beinist þó á engan hátt að skólanum, starfsfólkinu þar eða strákunum tveimur. Þetta eru börn og þau gera mistök og mörg þeirra eiga vafalaust um sárt að binda líka.

Sökina hér, eins og ég hef bent á í öðrum aðstæðum, er fyrst og fremst að finna hjá mér sjálfum, þér og okkur öllum. Ábyrgðina á velferð hver annars í samfélaginu eigum við öll. Það er undir okkur komið að kenna börnum okkar gildi, að gera rétt, setja sig í spor annarra, að vera sterk og þora að stíga fram og segja nei. Því það er ekki sanngjarnt að nokkurt barn þurfi að ganga í gegnum viðlíka, ég veit að þið eruð mér öll sammála. Og því miður þekki ég nokkur álíka tilvik í dag, bæði í skóla stráksins sem og í öðrum skólum og það er ægilega sorglegt að heyra.

Það eru mannréttindi að verða ekki fyrir ofbeldi og bendi ég því öllum á að dagurinn í dag er ekki eingöngu ljótur. Í dag er alþjóðlegur mannréttindadagur barna og hefur sá verið haldinn á hverju ári frá því 1954. Beini ég því þeim fyrirmælum(Forseti hringir.) til allra skólastofnana að sjá til þess að honum verði fagnað innilega að ári. Við getum betur!

Kveðja, faðir tveggja rauðhærðra snillinga.“