149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér hafa fjárlög verið rædd í þrjá langa daga og frábært að hafa haft tækifæri til að hlusta á marga góða ræðuna. Ýmsu hefur verið velt upp og mörg sjónarhorn reifuð. Athyglisverðast er að heyra minni hlutann tjá sig hér út og suður. Trauðla kem ég auga á skýra sýn, en heldur virðast mér menn tvístraðir í trylltu vinsældakapphlaupi. Gerast menn nú móðir.

Þrír flokkar sem hér eiga fulltrúa eru til umfjöllunar í The Guardian sem dæmi um popúlistaflokka. Er það ákveðinn áfangi og umhugsunarverður.

Hæstv. forseti. Það er óhætt að segja að í dag greiðum við atkvæði um fjárlög ríkisstjórnar sem hélt af stað með markmið um að byggja upp innviði. Stefnan er skýr, það kemur skýrt fram með aukningu fjármagns í alla málaflokka. Markmiðum um uppbyggingu í samgöngumálum, umhverfismálum, menntamálum og heilbrigðismálum, er fylgt fast eftir. Þangað fara mestu fjármunirnir. En auk þess er hægt að tína til ýmis atriði, eins og hærri atvinnuleysisbætur, hærra fæðingarorlof, aukin framlög í húsnæðisbætur, skógrækt, forvarnir, lýðheilsu og tannlækningar aldraðra o.s.frv. Eða með öðrum orðum: Á öllum sviðum mannlífs.

Hæstv. forseti. Ég hlakka til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um uppbyggingu og framfarir. Frumvarpið sem hér liggur fyrir og afgreiðsla þess eru í fullkomnu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Í ljósi þess að málefnasviðin eru 34 og málaflokkarnir 100 tek ég ofan fyrir þeim sem að því hafa unnið. Frumvarpið tekur á mjög mörgu en þrátt fyrir það eru breytingar hér við 2. umr. afar litlar. Breytingar eru alls staðar innan við 1%.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka hv. fjárlaganefnd fyrir góð störf og traust vinnubrögð.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki annað en að það haldi sem farið var af stað með, að byggja upp innviði.