149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef lengi haft áhyggjur af endurkomu valdhyggjunnar í einhverri mynd. Í því sambandi er erfitt að ræða mikilvægustu lexíurnar því að um leið og farið er í þær hörðustu er ummælum sjálfkrafa hafnað fyrir það eitt að á þær sé minnst. Þessi viðbrögð í umræðunni hafa jafnan aukið áhyggjur mínar því þau sýna svo vel hvað við erum fljót að bursta lexíur sögunnar út af borðinu alfarið. Upp á síðkastið hef ég samt haft minni áhyggjur af því útlendingaandúð eða inn-hópa og út-hópa popúlismi nái þvílíkum hæðum að úr verði hörmungar á borð við þær sem mannkyn framdi á sjálfu sér á fyrri hluta 20. aldar. Það er vegna þess að eftir að hafa lesið um og hlýtt á sögur af beinlínis ótrúlegri grimmd og hörmungum frá fyrri og seinni heimsstyrjöld þá stendur það eftir að þær liðu hjá.

Heimssamfélög hafa risið og fallið. Stríð hafa verið háð en þeim hefur lokið með milljónum látnum í valnum, milljónum eftirlifandi til að byggja úr öskunni um einhvers konar betri heim. Núna stöndum við frammi fyrir ógn sem er ekki ljóst að líði nokkurn tíma hjá svo lengi sem mannkyn endist á jörðu og sú ógn er loftslagsbreytingar. Þar reynir ekki síst á stjórnmálin. Þá vík ég að því sem vekur mér í raun mestar áhyggjur við uppgang valdhyggjusinna. Því miður eru valdihyggjusinnaðir leiðtogar almennt ekki bara illa innrættir heldur einnig mjög ómóttækilegir fyrir staðreyndum og gögnum sem þeim er illa við. Þeir drífa hlutina áfram á kjarki og hugrekki, styrk og stolti, ekki staðreyndum, röksemdafærslum, málefnalegri gagnrýni eða auðmýkt í sannleiksleit.

Afleiðingin er sú að nokkrir af valdamestu einstaklingum heimsins sporna beinlínis gegn því að okkur takist að draga úr þeim hörmungum sem eru vísar vegna loftslagsbreytinga því að það krefst þess að við drögum úr útblæstri núna. Eflum verulega orkuskipti og tækni til að milda áhrif loftslagsbreytinga núna. Hún krefst fórna, hún krefst hugvits, þolinmæði, umburðarlyndis, skilnings heiðarlegrar skoðunar á staðreyndum og upplýstrar heiðarlegrar umræðu án skotgrafahernaðar. Hún krefst þess góða í okkur, bestu dómgreindar okkar og bestu þekkingar. Látum þau gildi skína og höfnum hörmungum valdtekjurnar nú sem í framtíðinni.