149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum misserum birtist umfjöllun um að bakteríur hefðu ræktast í sýnum af innfluttu grænmeti. Í hluta þeirra sýna fundust bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Engar slíkar fjölónæmar bakteríur fundust í íslensku sýnunum sem tekin voru. Um síðustu helgi birtist grein í Morgunblaðinu eftir Karl G. Kristinsson, um sýklaónæmi sem vaxandi vandamál.

Það var líka ágætisumfjöllun um það í Kastljósi í gærkvöldi. Það er því engin spurning að við þurfum að vera vel á verði og það þarf að hlúa vel að innlendri matvælaframleiðslu.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur ályktað um að grípa þurfi til tafarlausra aðgerða ef ekki á illa að fara. Hér á landi búum við að því að eiga okkar eigin landbúnaðarframleiðslu sem okkur ber að standa vörð um og styðja með öllum tiltækum ráðum. Stuðningur við íslenskan landbúnað er stuðningur við neytendur sem þannig er tryggður aðgangur að heilnæmu matvælum.

Við verðum að standa vörð um eigin framleiðslu með sama hætti, eigi hún að standast samkeppni. Auk þess skilar stuðningur við landbúnaðinn sér margfalt til baka í verðmæta- og atvinnusköpun, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Verjum frekar íslenskan landbúnað og heilbrigði en skammtímahagsmuni kaupmanna.