149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að hafa í huga að fjárlagafrumvarpið hvílir á grunni fjármálaáætlunar sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðinn og frávikin eru nánast engin. Stefnumiðin og stóra myndin lágu þannig fyrir og birtast hér með mjög afgerandi hætti um áframhaldandi uppbyggingu innviða. Það er mikilvægast að halda á málum eins og hér er gert, að við getum áfram sinnt þeirri uppbyggingu á næstu árum. Það skiptir máli á sama tíma að sýna þá ábyrgð og festu sem nauðsynleg er með því að skila jákvæðri afkomu, að greiða niður skuldir og skapa ríkissjóði aukið svigrúm til þess að treysta stoðir hagkerfisins fyrir frekari vöxt til framtíðar.

Virðulegi forseti. Þetta fjárlagafrumvarp framfylgir ábyrgri, skynsamlegri fjármálastefnu og fylgir eftir innviðauppbyggingu og treystir stoðir hagkerfisins fyrir framtíðarhagvöxt.