149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það fjárlagafrumvarp sem við greiðum hér atkvæði um lýsir traustri fjármálastefnu. Áframhaldandi hagvöxtur er næstu árin. Við gerum lítils háttar lagfæringar á milli umræðna. Það eru óvenjulitlar breytingar sem verða á frumvarpinu á milli umræðna. Þær lýsa augljóslega traustri stjórn á ríkisfjármálum og öflugri vinnu í fjárlaganefnd. Ég vil þakka nefndinni fyrir vinnu hennar, ekki síst formanni hennar, Willum Þór Þórssyni, fyrir trausta og öfluga vinnu við fjárlagagerðina.

Aukning milli ára er um 4,6% eftir 65 milljarða aukningu síðasta árs. Það lýsir tvennu, annars vegar mjög sterkri stöðu ríkis og efnahagsmála á Íslandi, og hins vegar að ríkisstjórnin heldur markvisst áfram með þau áform sín að byggja upp innviði á Íslandi og auka þar með samkeppnishæfni þjóðarinnar.