149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Fátækasta fólkið á Íslandi þarf enn á ný og enn um sinn að bíða eftir réttlæti í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Afi og amma þurfa að bíða eftir plássi á hjúkrunarheimilinu lengur en áður. Ríkisstjórnin hristir sparibaukinn til að klóra saman 500 milljónum í aukatekjur sem hækka munu lán landsmanna. Ríkisstjórnin er í sókn, en öryrkjar og eldri borgarar og þeir sem bíða á biðlistum eru í vörn.

Biðlistar lengjast nú sem aldrei fyrr. Það virðist vera að fólk þurfi að bíða eftir algengustu aðgerðum, fyrst í 8–10 mánuði eftir viðtali, síðan í 12–18 mánuði eftir aðgerð. Þetta er stórsóknin. Þetta mun bjarga heilbrigðiskerfinu, hæstv. forseti. Þvílík öfugmæli! Þetta fjárlagafrumvarp byggir á því að það eru andstætt þenkjandi öfl við völd sem koma sér ekki saman um neitt nema minnstu atriði en taka ekki á því sem skiptir verulegu máli.