149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Segja má að við séum á mjög mikilvægum tímamótum með því að nú er að hægja á mjög kraftmiklu hagvaxtarskeiði og við finnum fyrir því m.a. í fjárlagagerðinni. Við sjáum að í fjármálaáætlun okkar er gert ráð fyrir minni rekstri frumgjaldanna inn á næstu ár en við höfum getað gert og gerum í þessum fjárlögum. Það er verulegur vöxtur frumgjalda. Það er mjög ánægjulegt að geta styrkt þannig bæði félagslega og efnahagslega innviði landsins á sama tíma og við skilum myndarlegum afgangi og styðjum við stöðugleika í landinu.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir 5,8% hækkun vegna málefna öryrkja milli ára, sem eru verulega langt umfram verðlag.

Í þeirri vinnu sem farið hefur fram hér í þinginu er mjög eftirtektarvert að við höldum okkur við þann ramma sem mótaður var með fjármálaáætluninni. Það munar einungis 1 milljarði á tekju- og gjaldahliðinni, sem er til vitnis um hversu miklu þessi nýju vinnubrögð hafa breytt. (Forseti hringir.) Krónutölugjöld og skattar hækka um 2,5% á næsta ári á meðan verðlag hækkar um 3,6%. (Forseti hringir.) Þannig að við gefum þar eftir til landsmanna.

Það er ekkert nema bjart yfir þessu fjárlagafrumvarpi. Ég þakka nefndinni fyrir góða vinnu.