149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Talað er um að hér sé aukinn jöfnuður. Hér er talað um að ánægjulegt sé að standa að þessu góða fjárlagafrumvarpi. Ég ætla bara að ítreka það sem ég sagði í ræðu minni í fyrradag: Það er ekki verið að auka hagvöxt eða auka kaupmátt öryrkja. Það er ekki verið að bæta kjör öryrkja um eina einustu, einustu krónu. (Gripið fram í: Það er rangt.) Þessi 3,4% (Gripið fram í: Það er rangt.) sem talað er um í fjárlagafrumvarpinu er eingöngu lögbundin leiðrétting, vísitöluleiðrétting, sem á að koma til árlega. En nú er algjörlega gefið í og þetta eiga að vera 3,6%.

Það er skammarlegt að horfa upp á þetta eina ferðina enn, að tala um að hækka og bæta kjörin þegar þetta er einfaldlega lögbundin leiðrétting. Við skulum bara láta það koma fram sem satt er í ræðupúlti Alþingis. Þetta er leiðrétting. Þetta er engin hækkun. Það eru um 3.600 kr. eða 3.800 kr. eftir skatt sem öryrkjar fá í leiðréttingu á næsta ári. Svei.