149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra kom hér upp og kallaði þetta fjárlög sóknar og fjárlög aukins jöfnuðar. Ég spyr þá: Sóknar fyrir hverja? Það getur vel verið að hér séu lagðir til töluverðir fjármunir sem helgast af því að það árar vel í landinu og hefur gert á undanförnum árum. En ég bendi hins vegar á ályktun miðstjórnar ASÍ frá því í dag þar sem varað er við því að þessi fjárlög séu ósjálfbær og núna þegar fer að halla undan fæti muni það bitna á velferðinni, bitna á öldruðum, öryrkjum og fátæku fólki.

Hæstv. forsætisráðherra sagði nýlega að tími efnahagslegs vaxtar væri liðinn og nú þyrftum við að horfa til hagsældar og skipta gæðunum jafnar. Það er ekkert, herra forseti, sem bendir til þess að ríkisstjórnin ætli að gera breytingar í þá átt að jafna byrðar hér í landinu.