149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er gælt við hugmynd um borgaralaun. Hér er sagt að við eigum að nota almannatryggingakerfið til að styðja við þá sem eru með góðar atvinnutekjur á lífeyrisaldri. Það er kolröng forgangsröðun. Þetta er ekki góð ráðstöfun á almannafé. Við eigum fyrst og fremst að snúa okkur að þeim sem hafa ekkert, geta ekki unnið, eru ekki með lífeyristekjur, hafa ekki getað nýtt starfsævina til að byggja þær upp.

Við eigum að stilla upp frítekjumarkinu í almannatryggingakerfinu hvað atvinnutekjurnar snertir með skynsamlegum hætti. Við höfum nýlega hækkað frítekjumarkið verulega. Það væri algjörlega galið að afnema það. Það þýðir að 700 þús. kr. forstjórinn fær almannatryggingabætur þegar hann er kominn á eftirlaun. (Gripið fram í.) — Jú, vegna þess að fullyrðingin um að hann muni örugglega (Forseti hringir.) vera með svo góð önnur lífeyrisréttindi stenst bara ekki. Þetta leysir maður með því að stýra peningunum til þeirra sem hafa minnst. (Forseti hringir.) Það er eina vitið. (Gripið fram í: Skilurðu þetta ekki?) — Jú.