149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:54]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á þessari breytingartillögu meiri hlutans á Alþingi. Ef tillagan er skoðuð virðist vera að ríkisstjórnin ætli að setja 56 millj. kr. aukalega í vísinda- og samkeppnissjóði í rannsóknum. Þessi framsetning er blekkjandi því að ef við rýnum í hvað er á bak við tillöguna sést að hér er á ferðinni flatur og órökstuddur niðurskurður í vísinda- og samkeppnissjóði í rannsóknum upp á tæpar 150 millj. kr. En á móti koma 200 millj. kr. inn, en þær koma einungis vegna endurmats á gengi krónunnar, sem bjagar auðvitað allt.

Sjáið þetta bara í ykkar eigin nefndaráliti. Stóra málið hér er að á milli umræðna leggur meiri hluti VG og Framsóknar og Sjálfstæðisflokks til að vísinda- og samkeppnissjóður í rannsóknum eigi að fá 150 millj. kr. minna en til stóð þegar frumvarpið var kynnt fyrir tveimur mánuðum.

Herra forseti. Þetta finnast mér vera afskaplega sérkennileg og skrýtin, pólitísk skilaboð.