149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegu forseti. Hér hefur stjórnarandstaðan talað út og suður varðandi fjárheimildir til lögreglunnar. Einn minni hlutinn leggur til aukningu upp á 800 milljónir sem annar minni hluti virðist styðja þótt það séu órökstuddar tillögur, en leggur fram aðra tillögu um 11 millj. kr. aukningu til löggæslunnar. Því er hér statt og stöðugt haldið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar að fé vanti til lögreglunnar þrátt fyrir að tölur sýni annað. Hér hefur það verið margrætt að fjárheimildir til lögreglunnar hafi aukist verulega undanfarin ár og ekki síst þetta ár, þar sem fjárheimildir hafa aukist um yfir milljarð á milli ára og ekki er dregið úr fjárheimildum til lögregluembættanna.

Ég nefni þessar tölur í grófum dráttum: Hátt í 850 millj. kr. aukning til landamæravörslu, yfir 400 millj. kr. aukning fjárheimilda til þess að efla lögregluna í tengslum við almennt löggæslueftirlit í tengslum við aukningu ferðamanna, 80 millj. kr. vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, 30 millj. kr. vegna peningaþvættis. Svona mætti lengi telja. Auðvitað fara þessir fjármunir til fjölgunar lögreglumanna og þeirra sem stunda lögreglustörf í víðu samhengi. Ég segi já.