149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Oft er talað um mikilvægi þess að auka skilvirkni Útlendingastofnunar og málsmeðferðir umsækjenda um dvalarleyfi hér, af hvaða ástæðum svo sem það er hverju sinni. Hins vegar virðist Alþingi ekki vera reiðubúið til að veita það fé sem þarf til að gera það án þess að það komi niður á réttindum og möguleikum fólks sem sækir um dvalarleyfi af einhverjum ástæðum, hvort sem það eru hælisleitendur eða einhverjir aðrir.

Ef við viljum skilvirkara kerfi eigum við að gera það með því að veita þá fjármuni sem þarf til að hafa skilvirkt kerfi. Hættan er sú og hefur verið árum saman að leitast er við að breyta reglunum þannig að auðveldara sé að meðhöndla þessi mál og þá yfirleitt í þá átt að svarið verði nei, sýnist mér. Ég hef hvorki tíma né sennilega þolinmæði þingmanna til þess að fara yfir hvers vegna það er slæm hugmynd fyrir okkur og slæm niðurstaða fyrir okkur sem þjóðríki og sem hagkerfi. En það þarf að fjármagna þennan málaflokk almennilega ef auka á skilvirknina á réttum forsendum.