149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að leggja það til að peningar verði færðir frá Útlendingastofnun á fjárlagalið sem snýr að hælisleitendum. Er það gert með það fyrir augum að fjölga þeim starfsmönnum sem vinna í dvalarleyfisumsóknum. Það er mjög mikilvægt í þessum málaflokki að fram fari góð og skilvirk vinna og ég styð þá tillögu. En mig langar að benda á að ég tel að í framhaldinu þurfi einnig að skoða hvernig hægt sé að styrkja það ferli sem varðar þá sem vinna úr umsóknum um leiðréttingu ríkisfangs hér á landi. Ég held að það sé næsta mál sem þurfi að skoða og vona að við getum tekið það síðar.