149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að fjalla um breytingartillögu Samfylkingarinnar sem leggur til 2 milljarða framlag í málaflokkinn samgöngur að gefnu tilefni. Samgöngukerfið okkar er einn af þeim innviðum sem vanræktir hafa verið stórkostlega á undanförnum árum og þar sem ég sit í hv. umhverfis- og samgöngunefnd er alveg ljóst að við verðum að gera miklu betur en þar sem við höfum haft hér fyrir framan okkur í fjárlögum af því að fólk verður að geta komist á milli staða á öruggum vegum til þess að geta sinnt vinnu sinni. Fólk verður að geta komist á milli staða til að geta sinnt námi sínu, komið börnunum á milli staða í hinum dreifðu byggðum en ekki síður hér á suðvesturhorninu þar sem öryggi vegfarenda er verulega ábótavant. Ég segi já.