149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Á árinu 2012 voru lögbundnir menningarsjóðir, menningarsamningar landshluta og óskiptir liðir ráðuneyta efldir til að taka við umsóknum og afgreiða þær frá einstaklingum og félagasamtökum. Þar áður hafði fjárlaganefnd auglýst eftir umsóknum um fjárframlög og afgreitt þær á fundum sínum. Það fyrirkomulag var harðlega gagnrýnt.

Breytingin var gerð í anda gegnsæis og þarfagreiningar og umsóknareyðublaðið var tekið af vef Alþingis. Breytingartillögu þá sem við greiðum nú atkvæði um getum við í Samfylkingunni ekki stutt, ekki vegna þess að verkefnin séu ekki ágæt heldur vegna þess að þeir, og aðeins þeir sem hafa góðan aðgang að þingmönnum eiga möguleika á að fá sérstaka styrki frá fjárlaganefnd af þessum toga. Það er, við eigum orð yfir slíkt; algerlega óásættanlegt.