149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur átt sér stað alveg gríðarlegur vöxtur er varðar kvikmyndagerð og þáttagerð á Íslandi. Stjórnvöld hafa stutt mjög dyggilega við bakið á þessu sjóðum og bara á fjórum árum hafa framlög aukist um 71%, þ.e. úr tæpum 600 millj. kr. í rúman 1 milljarð. Það er alveg gríðarleg aukning og skilar sér í því að íslenskar kvikmyndir og þáttagerð fá nú alþjóðlegar viðurkenningar og verðlaun. Við erum auðvitað mjög stolt af því.

Það sem stendur nú fyrir dyrum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er að við erum að móta kvikmyndastefnu til ársins 2030. Þar verður tekið sérstaklega til greina sú breyting sem átt hefur sér stað að við erum í auknum mæli að framleiða sjónvarpsþætti. Það verður mjög spennandi að fylgjast með því hvað þessi hópur gerir og ég bind miklar vonir við framtíðarmótun kvikmyndastefnu á Íslandi. Við höfum svo sannarlega gert mjög vel. En að mínu mati þurfum við að vanda til verka, ekki koma með tillögu á síðustu stundu, heldur að gera þetta í góðu samráði við kvikmyndaiðnaðinn og þáttagerð í landinu.