149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er gleðilegt að ná eigi meðaltali OECD í framlögum til háskólanna árið 2020 og nauðsynlegt til að tryggja samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. En 2020 verður skemmtilegt ár að ýmsu öðru leyti af því að þá er stefnt að því að taka upp nýtt fyrirkomulag námslána. Það verður nú aldeilis ný veröld fyrir stúdenta þá ef vel tekst til.

Fyrst ég á 30 sekúndur afgangs, forseti, langar mig að spara mér sporin og nefna leikskólana, vegna þess að sáldrað er í gegnum menntamálahluta fjárlaganna tillögum að aðgerðum sem snúa að, eins og ráðherrann nefndi áðan, börnum og nemendum með önnur móðurmál en íslensku, börnum af erlendum uppruna. Það er gríðarlega mikilvægt af því að lengi býr að fyrstu gerð. Til þess að við komum í veg fyrir brottfall í framhaldsskóla þarf að takast vel til í grunnskóla og leikskóla. Við þurfum að halda þessu áfram upp háskólastigið (Forseti hringir.) og alls staðar sem við getum til þess að allir sem hingað flytjast eigi jöfn tækifæri á að (Forseti hringir.) njóta sín í samfélaginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)