149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér er verið að fjalla um fjárframlag til háskólanna. Hér hefur enginn haldið því fram að ekki hafi verið bætt í. Talað var um að ekki væri verið að bæta nógu miklu í. Það er beinlínis rangt. Hér hafa einn hv. þingmaður og einn hæstv. ráðherra komið upp og ítrekað talað um það, síðast hv. þingmaður núna, að við myndum ná markmiðum OECD 2020. Það munum við einfaldlega ekki gera.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur sett sig í samband við sérfræðinga hjá OECD og farið yfir það að miðað við ástandið 2014, miðað við nemendafjöldann þá, miðað við verðlag þá, myndum við ná þessum markmiðum, en síðan eru óvart liðin fjögur ár. Nemendum hefur fjölgað og ýmislegt hefur gerst. Við munum ekki ná þessu 2020, hæstv. ráðherra, en við skulum reyna að stefna að því saman.