149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Undir þessum lið er verið að veita sérstakt framlag til nýstofnaðs lýðháskóla á Flateyri sem er að stíga sín fyrstu skref núna í haust og hefur verið komið á fót með dugnaði og krafti öflugs fólks. Lýðháskólar auka mjög fjölbreytni í námsvali fyrir fólk á öllum aldri. Við þekkjum LungA á Seyðisfirði, sem einnig fær fjármuni. Þetta mun treysta og efla byggð og auka fjölbreytni í menntunarframboði. Einnig er verið að auka stuðning við t.d. Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Austurbrú á Austurlandi. Við þekkjum það að starfsemi símenntunarstöðva skiptir gífurlegu máli vítt og breitt um landið. Við þurfum að skoða í heildarsamhengi starfsemi þessara stöðva og hvernig við getum styrkt þær til framtíðar og að það sé gott jafnræði þarna á milli, hvar sem er á landinu. Þær skipta máli í öllu samhengi.