149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er bara sú upphæð sem Landspítalinn hefur sagt að vanti til rekstursins. Ár eftir ár eftir ár. Við vitum hvernig sú þróun hefur verið. Við erum með skýrslurnar frá McKinsey og Landspítala. Við erum með það hvað gerðist í hruninu, niðurskurðurinn sem þar var. Það var kannski skiljanlegt, en síðan á uppgangsárunum undir stjórn hæstv. ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og svo núna síðustu ár, hefur rekstur Landspítalans ekki verið tryggður. Enn hefur ekki allur rekstur Landspítalans fengið þá innspýtingu sem hann þarf. Þetta er alveg ljóst. Við höfum hamrað á því hérna trekk í trekk. Það eina raunverulega sem gerðist var þegar læknar fóru í verkfall í fyrsta skipti í sögunni. Þá stóð flokkur upp sem er í ríkisstjórn núna og sagði að þyrfti að laga þetta.

Þetta er hluti af þeim vonbrigðum sem ég hef orðið fyrir varðandi Svandísi Svavarsdóttur sem hæstv. heilbrigðisráðherra. Hún gerir marga aðra góða hluti og ég er ekki búinn að yfirgefa stuðning minn við hana í heilbrigðismálum, ég held hún muni geta gert góða hluti. En það eru gríðarleg vonbrigði (Forseti hringir.) að ekki skuli vera hægt að tryggja rekstur Landspítalans. Þessi tillaga er í boði. Þessi tillaga er búin að vera í boði. Þetta er það sem Landspítalinn hefur sagt hvers vegna. Ég myndi vilja fá að heyra frá heilbrigðisráðherra: (Forseti hringir.) Hvers vegna er það ekki tryggt sem Landspítalinn segir að hann þurfi í rekstur?