149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þau fjárlög sem hér eru til umræðu eru verulegt fagnaðarefni fyrir heilbrigðisþjónustuna. Aukningin í málaflokkinn er 9,5 milljarðar frá yfirstandandi ári og er bætt í á öllum sviðum þjónustunnar. Nokkur atriði standa þar upp úr. Nýbygging Landspítalans, löngu tímabær. Efling heilsugæslunnar. Full fjármögnun geðheilbrigðisáætlunar og verulega aukið fjármagn í það að draga úr kosnaðarþátttöku sjúklinga, sem er sérstakt réttlætismál og snýst um það að jafna aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Það er ekki bara réttlætismál, það er líka kjaramál. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er það eitt mikilvægasta málefnið sem við getum tekist á hendur til þess að berjast gegn fátækt í heiminum. Heilbrigðismál eru í sókn í þessum fjárlögum og ofarlega á verkefnalista þeirrar ríkisstjórnar. Ég segi já.