149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Mjög alvarleg staða er á heilbrigðisstofnunum landsbyggðarinnar. Við þeim vanda er ekki brugðist í fjárlagafrumvarpinu eða með breytingartillögum meiri hlutans. Sem dæmi má nefna þá vantar 130 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Svipaða sögu má segja af Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Norðurlands og Austurlands. Heilbrigðisstofnanir Suðurnesja og Suðurlands vantar rúmar 208 milljónir, hvora um sig.

Íbúafjölgun í Suðurkjördæmi hefur verið gríðarleg undanfarin ár. Á Suðurnesjum hefur til að mynda fjölgað um 22% síðastliðin þrjú ár. Við því er ekki brugðist í fjárlagafrumvarpinu. En auðvitað hlýtur slík fjölgun að kalla á breytingar og aukin fjárframlög. Breytingartillaga okkar í Samfylkingunni er einmitt til að bregðast við þessum vanda stofnananna úti á landi.