149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er bara engan veginn nóg fyrir rekstur heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Nú skulu landsbyggðarþingmennirnir hugsa sinn gang þar sem þeir eru að lækka veiðigjöld. Vitið þið hver forgangsröðun landsmanna er gagnvart lækkun veiðigjalda, samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup gerði? Forgangsröðun landsmanna varðandi lækkun veiðigjalda er 1,4 eða 1,6, á meðan forgangsröðun allra flokkanna í ríkisstjórn og á landsbyggðinni er í kringum 77, á móti 1,4. Þeir milljarðar sem verið var að lækka veiðigjöld um nægja — hvað voru þeir? 3 milljarðar? En enn vantar 800 millj. kr. fyrir rekstur heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þannig að í hvert einasta skipti sem fólk sækir sér heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni á næsta ári skulu landsmenn hugsa til þess að það var frekar sett í forgang að lækka veiðigjöld og það vel rúmlega, en að tryggja rekstur heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er nokkuð sem þið sitjið uppi með.