149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um hækkun á framlagi til rekstrar hjúkrunarheimila. Sú hækkun nemur rúmum 276 millj. kr. og er til að mæta kostnaði við aukna hjúkrunarþyngd. Í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.“

Jafnframt segir að ráðist verði í stórsókn í uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma. Á næsta ári verða tekin í notkun tæplega 200 ný hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Það er 162 rýma aukning frá því sem nú er. Á næstu árum eru á áætlun nær 200 rými í viðbót víðs vegar um landið, m.a. á höfuðborgarsvæðinu.

Hér er loksins verið að ráðast í það átak sem svo lengi hefur verið kallað eftir í málaflokknum. Þær breytingar sem við gerum á framlögum eru eitt skref í þá átt að bæta rekstrargrundvöll þessa mikilvæga þáttar öldrunarþjónustunnar. Ég treysti því að við munum bæta í á næstu árum.