149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:21]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er stutt síðan við vorum hér nokkur, þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra, í Háskólabíói á tónleikum til styrktar SÁÁ. Það gera sér allir grein fyrir því, bæði sem voru á þeim tónleikum og þeir sem fylgst hafa með málum, að það þarf að gera meira en bara að taka það hænuskref sem ríkisstjórnarflokkarnir boða. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að horfast í augu við þann vanda sem blasir við íslensku samfélagi. Hann er núna. Við vitum að ungt fólk sviptir sig lífi í auknum mæli m.a. af því að það fær ekki þjónustu og umönnun. Þess vegna verðum við að fara í þetta mál núna. Mér finnst erfitt að horfa á töfluna eins og hún lítur út núna, meira rauða en græna. Ég hefði viljað sjá hana alla græna. Við segjum já.