149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég styð þessa tillögu um að hækka þetta um þessa 4 milljarða. Ég vil bara nefna það af því að við tölum oft um milljarða í sambandi við almannatryggingar, hversu oft við nefnum líka milljarða þegar kemur að skattbreytingum. Það er stundum alveg kostulegt að heyra umræðuna hérna um að það sé allt of dýrt að gera eitthvað í málefnum öryrkja og aldraðra í almannatryggingakerfinu, en síðan þegar kemur að skattalækkunum er skyndilega ekkert mál að minnka tekjur ríkissjóðs um fleiri, fleiri milljarða. Mér finnst sú kaldhæðni afskaplega áhugaverð.

Mér fannst bara rétt að nefna það þannig að fólk væri undir það búið að sjá milljarða þegar kemur að svona stórum kerfum. Við eigum að búast við að sjá milljarða í skattkerfinu, það er stórt kerfi. Almannatryggingakerfið er stórt kerfi. Það þarf stundum mikla peninga til þess að laga það. Það er mikilvægt að gera það. Við getum það alveg. Þess vegna styð ég þessa tillögu.