149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:31]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Hér er mikilvæg viðleitni til þess að rétta af ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Þetta er tillaga sem felur í sér að leiðrétta þá forgangsröðun sem er í boði ríkisstjórnarinnar. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er að lækka framlög til eldri borgara og öryrkja. Því viljum við mótmæla í Viðreisn. Þess vegna styðjum við þessa tillögu frá Miðflokknum. Ég vil mótmæla því sérstaklega að það sé á forsendum þess að starfshópur, endurskoðunarhópur, í tengslum við málefni öryrkja sé ekki búinn að klára verkin, að verið sé að bíða með þessa tillögu. Það er rangt. Ítrekað hafa komið fram tillögur m.a. af hálfu fulltrúa Þroskahjálpar í starfshópnum um að það eigi að hækka bætur til öryrkja frá og með næstu áramótum. Við viljum standa við það sem lofað var. Þess vegna segjum við í Viðreisn já við tillögunni.