149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórnin var búin að lofa öryrkjum að þeir fengju 4 milljarða inn í þennan málaflokk. Búið var að lofa því við framlagningu þessa fjárlagafrumvarps. Þessir peningar eru til. Það er hægt að forgangsraða með öðrum hætti. Það er t.d. hægt að sleppa því að lækka veiðigjöld um 3 milljarða (JÞÓ: Það er búið að eyða …) — mögulega líka fyrir þá sem hafa nóg á milli handanna. Það er allt í lagi að standa einu sinni við orð sín gagnvart því fólki sem á ekki neitt. Þetta fólk þarf alltaf að bíða.

Við erum margsinnis búin að stinga upp á því að þó að þetta komi til framkvæmda einhvern tímann á öðrum hluta árs eða þriðja eða hvenær sem það verður sem tillögurnar verða tilbúnar, geti þetta gilt frá 1. janúar. Það er sanngjarnt. Það er réttlátt (Forseti hringir.) að láta þetta gilda frá 1. janúar.

Ég skora á þingmenn (Forseti hringir.) að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég segi já.