149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég styð þessa tillögu og segi já við henni. Ég man ekki eftir þeim tíma þar sem ekki var verið að endurskoða almannatryggingakerfið, enda er um óhemjustórt og flókið kerfi að ræða. Þannig að ef við ætlum alltaf að láta einhverjar heildarendurskoðanir, sem eru mikilvægar, standa í vegi fyrir því að við gerum litlar breytingar munu öryrkjar þurfa að bíða að eilífu, vegna þess að það verður alltaf einhver endurskoðun á almannatryggingakerfinu í gangi. Þetta er einfaldlega það stórt, viðamikið og flókið kerfi, að jafnvel þótt gerðar séu breytingar eins og þær að koma á starfsgetumati eða hvað eina, sem meðan ég man er alls ekki óumdeilt, þá getum við ekki látið öryrkja bíða árum saman eftir því að við klárum einhverja heildarendurskoðun til þess eins að standa við gefin loforð, svo dæmi séu tekin. Það gengur ekki. Ég styð tillöguna og segi já.