149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við sjáum kannski skýrast í stjórnarsáttmálanum í hvaða forgangi öryrkjar eru. Þeir eru ekki í fyrsta kafla um styrkingu Alþingis, þeir eru ekki í öðrum kafla um sterkt samfélag, þar eru heilbrigðismálin fyrst mikilvæg, menntamálin mikilvægt. Svo koma efnahagsmálin, svo eitthvað, svo eitthvað, og svo loksins jafnréttismál, og þar, einhvers staðar í þriðja undirkafla, er talað um almannatryggingar og velferðarkerfi og öryrkja.

Ef við horfum á það hverjir eru kjósendur, hverjir kjósa, af þeim sem eru með tekjur undir 250 þús. kr. á mánuði, sem eru flestir öryrkjar, þá sjáum við það að þeir kjósa ekki Vinstri græn og Vinstri græn sjá það. Það eru fleiri sem kjósa Vinstri græn sem eru með yfir 1,5 milljónir í tekjur á mánuði, 11%, en þeir sem eru undir 250 þús. kr. á mánuði, sem eru ekki nema 9%. Ef við horfum á Framsóknarflokkinn er það eitthvað svipað. Svo horfum við á Sjálfstæðisflokkinn, þar er að vísu aðeins meira en ekki mikið, það er náttúrlega stærri flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn.

Staðreyndin er sú að öryrkjar kjósa ekki þessa flokka (Forseti hringir.) og treysta þeim ekki. Þessir flokkar hugsa: Hvers vegna ættum við þá að forgangsraða þeim þarna? (Forseti hringir.)

Ég ætla að vona að öryrkjar vakni til lífsins gagnvart því að (Forseti hringir.) þeir flokkar sem sitja í stjórn munu ekki hugsa um velferð öryrkja miðað við (Forseti hringir.) það sem við höfum séð í tillögunum. Og þá sjáum við hvaðan stuðningur þeirra kemur.

(Forseti (SJS): Þingmaðurinn segir?)

Þingmaðurinn segir já.