149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:41]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að sitja undir þeim málflutningi sem hér var hafður frammi áðan án þess að gera athugasemd. Að gera því skóna að ríkisstjórnarflokkarnir, sérstaklega Vinstri grænir, standi ekki við bakið á öryrkjum vegna þess að öryrkjar kjósi ekki flokkinn, er náttúrlega fyrir neðan virðingu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar.

Ég ætla bara að benda á eitt. Á síðustu tveimur árum, þ.e. frá 2017 og fram til næsta árs, er verið að auka framlög í málefnum öryrkja og fatlaðra um nær 10 milljarða. Hér liggur fyrir þinginu stjórnarfrumvarp sem er að fella niður tekjuskatt af uppbótum á lífeyri. Það mun bæta hag þessa fólks sem verst stendur um 500 milljónir ári, hv. þingmaður.

Að koma síðan hér upp og halda því fram að ríkisstjórnarflokkarnir taki afstöðu til (Forseti hringir.) einstakra hópa sem standa illa, út frá einhverjum skoðanakönnunum — það eru einhverjir aðrir en þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem gera það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (SJS): Hv. þingmaður hefur gert grein fyrir atkvæði sínu.)

Ég segi nei.