149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi hér áðan eigum við að búast við að sjá fleiri milljarða þegar við ræðum um almannatryggingakerfið almennt. En eftir upplýsingasöfnun hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar á sínum tíma kom í ljós að það var eitt sem væri hægt að laga í almannatryggingakerfinu sem væri það að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnuþátttöku. Það myndi kosta aðeins 1,1 milljarð, sem er mjög lág upphæð í samhengi við almannatryggingar, þegar fyrir liggur að geta lagað eitthvað sem skiptir fólk verulega miklu máli. Til samanburðar eru það fleiri tugir milljarða þegar kemur að lífeyrissparnaðinum og að hætta skerðingum vegna lífeyrissjóðs sem fólk á.

Það segir sig sjálft, þar sem þessi upphæð er þetta lág í samhengi við almannatryggingakerfið, að fólk heldur aftur af sér með vinnu. Fólk á efri árum heldur aftur af sér vinnu vegna þessara skerðinga. Þess vegna er ég ekki trúaður á að þetta verði það mikill kostnaður. Ég held reyndar að þetta gæti jafnvel endað í plús hjá ríkinu vegna þess að þetta myndi leysa úr læðingi getu fólks sem þó getur enn unnið á efri árum — sem eru auðvitað ekki allir, en sumir, margir. Þá koma skattgreiðslur á móti. Við höfum svo sem farið oft yfir þetta. Mér finnst þess virði að undirstrika samhengi (Forseti hringir.) þessarar upphæðar við aðrar upphæðir með sambærilegri spurningu. Það segir okkur sögu, segir okkur hvað er óhætt að gera. Það segir okkur að við myndum bæta kerfið mjög mikið með því að gera þetta.