149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Stjórnarmeirihlutinn bregst ekki við ákalli verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á barnabótakerfinu og vill að upphæðin, sem við samþykkjum hér fyrir árið 2019, sé að raunvirði sú sama og samþykkt var fyrir árið 2013. Barnabótakerfið hefur markvisst verið veikt undanfarin ár og þúsundir barnafjölskyldna hafa dottið út úr kerfinu. Skerðingarhlutföllin eru allt of grimm og verða til þess að fólk undir miðgildislaunum fær engar barnabætur. Þær byrja að skerðast á launum sem eru í neðsta tekjufjórðungi. Við í Samfylkingunni viljum hverfa frá stefnu ríkisstjórnarinnar um að barnabætur séu eingöngu í formi styrks til fátækra og viljum horfa til hinna norrænu ríkjanna — útfærsla barnabóta og breytingartillögur okkar eru til að stíga skref í þá átt.