149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þrátt fyrir ummæli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins um að húsnæðismálin séu lykillinn að samkomulagi komandi kjarasamningum helst heildarfjárhæð vegna húsnæðisstuðnings nánast óbreytt á milli ára. Árið 2019 verða vaxtabætur einungis 3,4 milljarðar kr., sem er minna en til stóð að hafa þær árið 2018 þegar þær áttu að vera 4 milljarðar kr. Lækkunin nemur 15% á milli ára. Í heild hefur húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið rýrnað að raungildi um ríflega 70% frá árinu 2013 og heimilum sem fá vaxtabætur fækkað um rétt 19 þúsund.

Það verður að ráðast í breytingar til að tryggja að vaxtabæturnar fari raunverulega til þeirra sem þurfa á þeim að halda. Því þarf að hækka framlögin og breyta viðmiðum. Tillaga okkar í Samfylkingunni er einmitt til þess gerð.