149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:24]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ólíkt því sem kom fram hér áðan í máli sumra þingmanna er verið að auka við framlög til sjúkrahússins Vogs og SÁÁ í þessari tillögu. Það er pínulítið sérstakt að sjá marga sem töluðu hér fjálglega áðan um það hversu nauðsynlegt það væri að ætla að sitja hjá við þessa aukningu. Hér er lögð til aukning sem er sett til ráðuneytisins sem fer í það að semja sérstaklega og beint við sjúkrahúsið Vog. Það er verið að koma til móts við ítrekað ákall um aukna göngudeildarþjónustu og festa þar með þá þjónustu í sessi, ekki síst á landsbyggðinni, nokkuð sem töluvert hefur verið kallað eftir.

Þær tillögur sem áður hafa verið hér til umræðu um Vog tóku ekki beint á þeirri skilgreindu þörf, göngudeildarþjónustu, sem gert er í þessari tillögu. Ég veit töluvert um sjúkrahúsið Vog og er tilbúinn að styðja það góða verk sem þar er unnið. Þess vegna segi ég já.