149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég heyri svokallaða hægri menn — ég segi svokallaða vegna þess að ég er sjálfur svolítið ringlaður yfir því nákvæmlega hvað allt þýðir — ég heyri úr hægri áttinni að fólk eigi að fá að njóta ávaxta erfiðis síns og þess vegna sé ekki gott að skattleggja allt upp úr öllu valdi. En hvað með 100% skatt? Hér er auðvitað ekki um skatt ræða, hins vegar eru þau sömu áhrif á fjárhag fólks sem verður fyrir krónu á móti krónu skerðingum. Það vinnur sér inn eina krónu og það missir eina krónu. Það sem meira er, er að vegna þess að tekjur sem eru taldar til tekjuskatts geta haft áhrif á enn aðrar greiðslur, þá getur þetta orðið meira en 100%.

Mig langar gjarnan til þess að í hvert sinn sem fólk talar um letjandi skatt eða letjandi kerfi þá hugsi það til þessa. Það sem við leggjum til hér að verði lagað er bara kerfisvilla. Þetta er bara eitthvað sem er ekki rétt hannað. Vissulega kostar peninga að breyta því, eðlilega. Því hvet ég fólk til að leiðrétta þessa villu. Ég trúi því ekki að fólk myndi setjast niður og hanna þetta kerfi nákvæmlega eins og það er í dag og hafa þessa bersýnilegu (Forseti hringir.) villu inni í því. Ég trúi því ekki. Þetta er það sem við köllum í tölvubransanum böggur, lögum hann bara.