149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Undir þessum lið eru nokkrar fjárveitingar. Ef maður les nefndarálit meiri hlutans þá sjáum við að undir þessum lið er fjárveiting til SÁÁ upp á 150 milljónir, fjárveiting til Ljóssins upp á 30 milljónir, sem er stuðningsmiðstöð við krabbameinsgreinda. Þetta eru góð mál sem Miðflokkurinn styður. Hins vegar er þarna undir líka sérstakt gæluefni Sjálfstæðisflokksins, að bæta í ríkisbáknið. Þarna eru 70 milljónir til að skipta upp velferðarráðuneytinu og aðrar 92 milljónir til að efla ráðuneytið. Miðflokkurinn getur ekki stutt þessa stefnu Sjálfstæðisflokksins, að bæta í ríkisbáknið. En það er hins vegar ámælisvert, herra forseti, hvernig þetta er sett upp hér í atkvæðagreiðslunni, að ekki skuli vera hægt að greiða atkvæði sérstaklega um það að styðja við SÁÁ — um leið þarf maður að styðja við það áhugamál Sjálfstæðisflokksins að bæta við ríkisbáknið.

Miðflokkurinn verður að sitja hjá í þessu, en ég bendi á að við fluttum tillögu um að hækka framlag til SÁÁ.